Þunglyndi: Gubbupest heilans

Þunglyndi: Gubbupest heilans

Í gær þá heyrði ég hluta af fyrirlestri hjá konu sem var meðal annars að ræða það að systir hennar hafði framið sjálfsvíg. Konan reyndi að skilja hvernig einhver gæti framið það verk, og hafði náð ágætum skilningi á hugmyndinni að „missa vonina.“ Það er skiljanlegt að hún skildi það ekki, og í raun að hún muni aldrei skilja það því það er engin leið fyrir einhvern sem hefur aldrei farið í djúpt þunglyndi að skilja 100% hvernig það er.

EN flestir ættu að geta skilið nokkurn veginn hvernig það er ef við berum það að vera í djúpu þunglyndi saman við reynslu sem nær allir hafa lent í.

Þar sem ég er ágætur í því að setja orð saman í setningar, jafnvel málsgreinar, þá ætla ég að sjá hvort ég geti dýpt aðeins reynslubrunninn fyrir fólk sem vill vita hvernig það er að vera í djúpu þunglyndi.

Table of Contents

Gubbupest

Ég ætla að biðja þig um að rifja upp slæman dag í lífi þínu. Ekki bara hvaða slæma dag sem er samt. Ég er að tala um þegar þú fékkst gubbupest. Ég er ekki að tala um þynnku eða þegar þú gubbaðir einu sinni, ég er að tala um þegar þú varst gubbandi í sólahring með matareitrun eða magapest.

Þú vaknaðir líklegast við það að vera óglatt. Þú hljópst inn á klósett og gubbaðir. Þér leið aðeins betur og hugsaðir að þú hefðir kannski borðað eitthvað en nú væri… þú ferð aftur að gubba. Þú leggst út af. Þú finnur hvernig vanlíðan heltekur líkama þinn. Þetta er ekki bara í maganum. Þér líður bara ógeðslega illa. Þú reynir að sofna til að flýja vanlíðuna en það er ekkert að ganga sérstaklega vel. Þú gubbar aftur. Þér líður aðeins betur en þú veist að það að gubba er skammgóður vermir.

Þú kveikir á sjónvarpinu til að reyna að fá hugann af þessu. Þú setur á uppáhalds sjónvarpsþættina þína. Þeir veita þér enga gleði. Eina sem þú getur hugsað um er hversu illa þér líður. Persónurnar í þættinum eru að borða. Þú horfir á þau og hugsar hvernig í andskotanum þau geta bara borðað eins og það sé eðlilegt. Vanlíðan þín og ógleðin er svo dramatísk að þú getur ekki einu sinni sett þig í spor annara lengur. Þú getur ekki ímyndað þér að vera ekki með gubbupest. Þér líður eins og þér muni ekkert batna og dagar þínir sem étandi lífvera eru á enda.

Þú veist að þetta eru ekki hugsanir í takt við raunveruleikann en það breytir engu. Þegar manni líður svona illa þá spáir maður ekki í hvað er rökrétt og hvað ekki.

Þú nærð að sofna og um 12 eða 24 tímum eftir að þú byrjaðir að æla, þá er gubbupestin gengin yfir. Þú finnur fyrir svengd. Þér er enn ónotalegt og þú ert kannski með smá strengi meira að segja en núna veistu að þetta verður allt í lagi. Þú hugsar kannski tilbaka og spáir hversu mikil dramatík var í gangi. Heilinn þinn sér til þess að þú getir ekki endurupplfaið vanlíðuna svo eftir smá tíma, þá áttu meira að segja erfitt að muna að gubbupest sé það slæm.

Þunglyndi

Okay, kannski ertu ein af þeim heppnu og þú hefur aldrei upplifað svona slæma gubbupest, en kannski geturðu ímyndað þér þetta því þú hlýtur að hafa verið óglatt og veist hversu ömurlegt það er.

Ef þú getur ímyndað þér þetta, þá ertu með smá sýn af því að vera í djúpu þunglyndi.

Nema þú ert ekki bara í þunglyndi í 12-24 tíma, það er kannski dagar, vikur, mánuðir. Þú getur ekki líklegast ekki tekið þér veikindafrí og verið í rúminu allan þann tíma. Þú þarft að vinna/fara í skóla/sjá um börnin/hvað sem þú þarft að gera í daglegu lífi.

Auðvitað er þunglyndi og gubbupest ekki nákvæmlega það sama, en það er, að mínu mati, nógu margt sameiginlegt til að gefa smá innsýn.

Ég btw geri greinarmun á þunglyndi sem lætur mann vera down en fúnkerandi, og djúpu þunglyndi, sem heltur mann eins og gubbupest, en í stórum dráttum er hægt að lýsa báðu svipað.

Þegar maður vaknar með djúpt þunglyndi, þá er þyngsl yfir manni öllum og vanlíða sem hefur engan miðpunkt. Eins og gubbupestin, þá er líkamlegu óþægindin hvað mest í maganum. Tilfinningar eiga það til að koma fram í gegnum magann. Með fiðrildum þegar við erum spennt og hnút þegar við erum kvíðin. En það er ekki beint hægt að lýsa vanlíðunni við þunglyndi, sem gerir þetta allt bara erfiðara. Þetta er ekki sársauki eins og við flest skilgreinum hann. Sársauki væri auðveldari, maður getur bent á hvar maður finnur fyrir sársauka. Þunglyndi er meira þyngd sem leggst á mann allan.

Það er erfiðara að standa upp, það er erfiðara að fara í föt, það er erfiðara að fara í sturtu. Allt er erfiðara út af þessari vanlíðan. Það skiptir heldur ekkert máli þegar vanlíðan er með yfirhöndina og, eins og með slæma gubbupest, þá hættir maður að geta ímyndað sér að þessi vanlíða fari. Þú getur horft á sjónvarp og séð fólk hlæja og brosa og þú hugsar „hvernig geta þau verið að gera þetta?“

Flest fólk tengir „þunglyndi“ við hugsanir um að vera þú skiptir ekki máli, ert tilgangslaus, ekki nógu góð/ur, baggi á fólkið í kring um þig, aumingi, og allt annað neikvætt. Þessar grunnhugmyndir eru réttar og margir upplifa þessar hugsanir beint en það þarf ekki að vera að maður hugsi þær beint.

Til að útskýra hvað ég meina, þú veist hvernig það er að vera svangur. Að finna fyrir svengd. Það er bara tilfinning sem þú færð og þú veist hvað hún þýðir. Þú þarft ekki að hugsa „ég er svangur því að það eru 7 tímar síðan ég borðaði síðast og maturinn sem ég borðaði var léttur og núna þarf ég að finna mér mat til að borða svo ég…“

Þú ert bara svangur. Það er eins með þessar neikvæðu hugsunar. Það þarf ekki að hugsa þær beint, þú ert með tilfinninguna sem er „þú ert gagnslaus.“

Þegar þessar hugsanir fara í meðvitundina, þá eru góðar líkur að einstaklingurinn viti að þær eru órökréttar og eiga ekki við í raunveruleikanum, en eins og órökréttu hugsanirnar þegar við erum með gubbupest, þá skiptir það ekki máli. Þetta eru hugsanirnar sem þú ert að díla við hér og nú og samkvæmt núverandi ástandi, þá eru þær hinar réttu.

Og þegar „núverandi ástand“ verður að „ástandið síðustu daga/vikur/mánuði/ár,“ þá verða þessar hugsarnir raunverulegri og sá partur af heilanum sem heldur í raunveruleikann verður veikari.

Og svo vaknarðu einn daginn og þér líður miklu betur og þú hugsar kannski til baka og spáir hversu mikil dramatík var í gangi. Heilinn þinn sér til þess að þú getir ekki endurupplifað vanlíðuna svo eftir smá tíma, þá áttu meira að segja erfitt að muna að þunglyndið sé það slæmt.

Sumir vakna ekki.

Smá ráðleggingar út frá minni reynslu

TIl þunglyndra

Ef þú upplifir þunglyndi, hvort sem það er djúpt eða ekki, fáðu þá hjálp. Fáðu tíma hjá lækni í heilsugæslunni þinni, farðu á læknavaktina, talaðu við vini eða fjölskyldu, hvað sem er. Ekki bara fela það því það bókstaflega hjálpar engum og straight facts er að það að tala um hluti minnkar hluti.

Þegar þú ert með hugsun eða vandamál og lætur hana grasserast í hausnum á þér, þá muntu mikla hana með að endurtaka hana endalaust í huganum. Vandinn verður stærri og dramatískari í hvert skipti sem þú spilar út ímyndað samtal eða ímyndaðar afleiðingar. Að tala við einhvern um hugsunina/vandamálið, minnkar það næstum örugglega. Það leysir kannski ekki neitt, en ég get lofað að það eru góðar líkur á að þú eigir auðveldara með að hugsa um eitthvað annað.

Geðlyf eru enn taboo shit og fjölmiðlar koma reglulega með shame fréttir um hvað Íslendingar nota allt of mikið af geðlyfjum miðað við aðrar þjóðir, og bla bla bla. Ég get sagt hreint út að ég væri ekki lifandi í dag ef ég hefði ekki venlafaxine og quetiapine. Það má vel vera að Íslendingar noti mikið af geðlyfjum en það kemur mér ekki við. Þú mundir ekki sleppa að taka inn sykursýkislyf þó að það kæmi frétt um að Íslendingar noti meira af sykursýkislyfjum en aðrar þjóðir, svo ekki hugsa um geðlyf þannig heldur.

Til annarra

Ef að einhver í kring um þig er með þunglyndi eða virðist vera með þunglyndi, láttu vita af þér. Þegar maður hugsar að maður skipti ekki máli fyrir neinn, þá geta skilaboð sem afsanna það skipt mjög miklu.

Vertu til staðar en ekki vera yfirþyrmandi. Láttu vita að þú sért game í hitting eða eitthvað en ekki ætlast til að einstaklingurinn sé til í það strax og það hentar þér. Fæstum finnst geggjað að láta einhvern sitja yfir sér þegar maður er með gubbupest, þunglyndi getur verið eins. Það getur verið að einstaklingurinn vilji endilega komast út og hitta fólk en það gæti líka gert hlutina bara enn verri.

Ekki spyrja „af hverju?“ Svarið er augljóst. Ef einhver er með gubbupest og gubbar, þá þarftu ekki að spyrja „af hverju gubbaðirðu“. Ef einstaklingur er þunglyndur þá gæti verið að eitthvað kom upp á sem triggeraði þunglyndið, það gæti líka verið ekkert. Að reyna að láta þunglyndan einstakling réttlæta þunglyndið sitt er ekki að fara að hjálpa neinum. Leyfðu sálfræðingunum að sjá um að sálgreina.

Spurðu frekar: Er eitthvað sem þú vilt ræða um sem gæti látið þér líða betur?

Skiptu út „þunglyndi“ fyrir „sykursýki“ og ákveddu síðan hvort þú ættir að spyrja spurngunna. „Ég bara skil þetta ekki. Þú átt fullt af vinum, ert vinsæll og hæfileikaríkur, en ert samt með sykursýki?“ Heimskt, ekki satt?

„Hvernig líður þér? Ertu ekkert betri?“ eru tvær spurningar sem ég held að flestir langveikir hafi lært að hata. Þessar spurningar koma frá góðum stað og hafa sinn tíma og sá tími er ekki daglega. Ef einstaklingur er að fara í gegnum djúpt þunglyndi, þá eru góðar líkur á að hann vilji ekkert endilega reyna að lýsa líðu sinni á hverjum degi. Persónulega vil ég frekar fá „ertu nokkuð verri?“ því ég get bara sagt „nei.“ „Hvernig ertu?“ er líka betri af einhverri ástæðu.

„Ertu ekkert betri?“ er verri spurning að mínu mati því að það er rosalega erfitt að meta eitthvað sem er semi-af eða á. Það setur líka pressu á að svara að maður sé betri því af hverju er ég ekkert betri, er það því ég er ömurleg mannvera sem get ekki einu sinni verið betri? AAAAAA!

Auðvitað viltu spyrja en það er líka hægt bara að tala við einstaklinginn og meta það út frá samtalinu.

Mikilvægast. Talaðu beint út. Ekki láta eins og að það að vera þunglyndur sé eitthvað svakalegt shame sem má ekki nefna. Það var normið fyrir ekki mörgum árum og það hjálpaði engum. Þunglyndi er ekki aumingjaskapur eða neitt því um líkt. Það er bara sjúkdómur eins og hver annar sjúkdómur. Það að þú getir talað um hann þannig hjálpar þeim sem er að díla við þunglyndið að hugsa um hann þannig.

Ef við normalizum það að tala um líðan okkar, meira að segja þegar hún er rosalega dramatísk og neikvæð, þá minnkum við líkurnar á að einhver sé einn í herbergi að díla við vanlíðuna og ákveði að hún muni aldrei hverfa svo það er betra fyrir þau að hverfa.

Við viljum koma í veg fyrir það.

Random Reviews
Children of the Corn V: Fields of Terror (1998)
Children of the Corn V: Fields of Terror (1998)
3/5
Freddy’s Fridays (2023)
Freddy’s Fridays (2023)
0.5/5
Amityville II: The Possession (1982)
Amityville II: The Possession (1982)
3.5/5
Flying Virus (2001)
Flying Virus (2001)
2/5
Holes in the Sky: The Sean Miller Story (2021)
Holes in the Sky: The Sean Miller Story (2021)
1.5/5
Maneater (2007)
Maneater (2007)
2/5
Shark Killer (2015)
Shark Killer (2015)
2/5
Ferocious Planet (2011)
Ferocious Planet (2011)
1.5/5